Vinnur femínistafélag Íslands gegn jafnrétti?

Það eru engin tíðindi að frjálslyndir femínistar (liberal feminists) telji rótæku femínistana (radical feminists) grafa undan málstað kvenna og eitra jafnréttisbaráttuna. Oftar en ekki skapa rótæku femínistarnir spennu og andstöðu milli karla og kvenna í stað þess að einbeita sér að því að vinna að breytingum á stjórnkerfinu til aukins jafnréttis.

Ofuráhersla á kynin skapar þessa spennu, enda stilla rótæku femínistarnir þessu oftar en ekki upp sem karlar gegn konum. Við frjálslyndu femínistarnir teljum að baráttan sé ekki við karlmenn, heldur er lausnin samvinna kynjanna.

Lagasetningar í anda rótækra femínista eins og jafnréttislögin skapa þessa spennu. Jákvæð mismunun er í eðli sínu neikvæð og ekki í anda jafnréttis. Nú sækja konur af auknum krafti í betri menntun og hærri embætti og með tíð og tíma mun jafnvægi nást í samfélaginu. Þó má ekki sofna á verðinum. Við verðum að gæta þess að jafnréttið sé ávallt í forgangi, en jafnrétti er ekki það sama og jafnt kynjahlutfall. Ég vil ekki sjá hæfar konur þurfa að víkja úr stöðum í framtíðinni vegna þess að þær eru konur og þá af sama skapi ætlast ég ekki til að karlar víki fyrir mér.

Jafnrétti er ekki einkamál okkar kvenna. Jafnrétti er mikilvægt fyrir alla þjóðfélagshópa, þá sérstaklega minnihlutahópa. Óhætt er að segja að við værum að gera lítið úr málstað samkynhneigðra, fólks af erlendum uppruna o.s.frv. ef við réttlætum það að okkur sé ýtt áfram af ,,jákvæðri mismunun" en þessum þjóðfélagshópum ekki. Ef 15% þjóðarinnar væru svartir ættu svartir þá kröfu á 15% af öllum stöðugildum í samfélaginu? Ég geri mér grein fyrir því að kynjabaráttan hefur þá sérstöðu að hún nær yfir allann hópinn, þar sem allir þjóðfélagshópar eru settir saman af konum og körlum. En barátta þessa hópa er sú sama og okkar kvenna, jafnrétti!

Femínistafélag Íslands hefur starfað að mínu mati algjörlega á þessari rótæku femínistahugmyndafræði og skapað sér neikvæða ímynd í þjóðfélaginu af þeirri ástæðu. Til dæmis mættu femínistar rísa upp og berjast fyrir bættu jafnrétti á fleirri sviðum. Félag einstæðra feðga er hópur sem fellur algjörlega undir þá þjóðfélagshópa þar sem jafnréttið er haft að engu.

Við stelpur eigum að hætta að líta á karla sem óvininn og fá þá í lið með okkur í jafnréttisbaráttunni. Þeir eiga nú flestir mæður, konur og dætur sem þeir vilja ekki að búi við óréttlæti.

Jafnrétti er ekki einkamál okkar stelpna.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ég var nú svo „vitlaus“ að ég hélt fyrir nokkru að það væru strákagrallarar sem skrifuðu þessa síðu til að stríða femínistum ... nafnlaust og svona ... en ég sé að svo virðist ekki vera, færslan er skrifuð í kvenkyni. Hef séð á viðbrögðum margra karla að þeir fíli svona "rólegan" femínisma og það vekur mér ugg.

En ...er ekki svona hófsöm stefna, eins og hér er boðuð, til þess eins gerð að halda hlutunum í horfinu? Gerist nokkuð nema tekið sé almennilega á málum?

Ég tek það þó fram að ég hef ekki lesið allar færslur hér.  

Guðríður Haraldsdóttir, 20.2.2007 kl. 16:27

2 Smámynd: Femínistinn

Sæl Guðríður,

Takk fyrir innlitið og skemmtilegt blogg hjá þér. Það er rétt hjá þér að mörgum finnst frjálslyndur femínismi þægilegri en róttækur femínismi en þær og þeir sem aðhyllast þessar stefnur vilja samt ná sama takmarki þrátt fyrir ólíkar áherslur.

Við teljum alls ekki að tilvera frjálslyndra femínisma dragi á einhvern hátt úr málstaðnum. Þverrt á móti teljum við að ef fleira fólk getur fundið sér vettvang í jafnréttisbaráttunni þá sé það henni eingöngu til framdráttar.

Það þekkist á mörgum stöðum að hópar eða félög sem aðhyllast stefnur sem snúa í sömu átt hópi sér saman. Það er til dæmis mjög algengt ef við lítum til stjórnmála að "vinstri-miðju" flokkar annars vegar og "miðju-hægri" flokkar hins vegar myndi með sér bandalög án þess að það veiki málstað þeirra.

Femínistinn, 20.2.2007 kl. 16:48

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Takk fyrir gott svar!

Guðríður Haraldsdóttir, 20.2.2007 kl. 17:31

4 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Góð grein og svar til Guðríðar H. setur punktinn yfir i-ið varðandi greinina.

Ragnar Bjarnason, 20.2.2007 kl. 21:20

5 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Mér leikur forvitni á að vita hvað í jafnréttislögunum ykkur finnst í anda rótækra feminista.  Vissulega get ég verið sammála ykkur í sumu en ég get ekki fallist á að Feministafélag Íslands vinni gegn jafnrétti.  

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 20.2.2007 kl. 22:34

6 Smámynd: Femínistinn

Það var aldrei fullyrt um að Femínistafélag Íslands ynni gegn jafnrétti, heldur þeirri spurningu kastað fram í fyrirsögn greinarinnar.

Í dag ráða rótækir femínistar lögum og lofum Femínistafélagi Íslands. Það er ein af þeim ástæðum að við viljum ekki koma undir nafni, sumar okkar þekki vel til innan félagsins og viljum ekki verða litnar hornauga.

Við erum ekki í neinu stríði við forystu Femínistafélag Íslands, heldur er markmið okkar að skapa grundvöll fyrir hófsamari femínisma en núverandi stjórn aðhyllist. 

Hver veit nema breytinga sé að vænta í forystu femínistafélagsins á næstunni  ? 

Femínistinn, 21.2.2007 kl. 02:16

7 identicon

Ég meina það ekki illa þegar ég segi: Ég er enn að bíða eftir því að sjá raunverulega kvenfrelsisbaráttu á þessari síðu sem kennir sig við femínisma.

hee (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 10:27

8 Smámynd: Haukur Nikulásson

Loksins kemur femínisti með eitthvað sem maður getur samsamað sig við. Það sem meira er að málflutningur af þessu tagi nær ekki bara eyrum okkar karlmanna heldur eykur líka samúð og skilninginn á jafnréttisvanda kvenna.

Frekjutónn í málflutningi öfgafemínista vekur bara upp stífnina í mörgum karlmönnum og það hjálpar ekki annars góðum málstað.

Það er líka hárrétt hjá pistilshöfundi að karlmenn eru ekki óvinurinn. 

Haukur Nikulásson, 21.2.2007 kl. 11:37

9 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Takk fyrir svarið, enþú latar um að jafnréttislögin séu í anda rótækra feminista.  Ég er áhugasöm um ykkar sjónarmið og langar að fá upp áborðið hvað í jafnréttislögunum er í anda rótækra feminista. 

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 21.2.2007 kl. 12:11

10 identicon

Gaman að lesa svona frá einhverri sem segir sig femínista.  Þetta eru orð sem ég get tekið undir - samt hef ég oft verið kallaður karlremba.
Það hefur alltaf verið mín skoðun að kynjakvótar og jákvæð mismunum sé brot á því jafnrétti sem getið er í stjórnarskrá.  Í mínum huga ætti jafnrétti að snúast um að skapa jöfn tækifæri fyrir alla til að komast þangað sem þeir vilja - ekki að tryggja hlutföll í stöðum og störfum með lagasetningum sem mismuna fólki.  Jákvæð mismunum er ekki jákvæð þótt orðið standi í hugtakinu. 

Ra (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 12:31

11 Smámynd: Femínistinn

Matthildur ég skal svara því afhverju okkur þykja jafnréttislögin gölluð. 

nokkur dæmi:

 1. gr. Markmið. - d. bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu

Afhverju sérstaklega stöðu kvenna? Jafnrétti gengur yfir alla og staða okkar kvenna er ekkert verri en t.d. samkynhneigðra? Ég vil 100% jafnrétti, en fyrir alla þjóðfélagshópa, ekki bara konur.

14. gr. Launajafnrétti. - Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Afhverju þarf að greiða það sama fyrir sambærilegt starf? Ég er kannski duglegri en einhver annar í sömu stöðu og ég, afhverju má ekki verðlauna mér fyrir það?

sama grein - Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun feli ekki í sér kynjamismunun.

Þetta er góð meining en hvernig er hægt að segja að um kynjamismun sé að ræða þegar tveir einstaklingar eða fleirri eru með misjöfn laun fyrir sömu vinnu?  Hugsanlegt t.d. að konurnar séu hæfari í ákveðnu starfi og eigi þess vegna rétt á hærri launum.  Ekki vil ég t.d. að þær konur sem starfa sem rafvirkjar lækki í launum (samkvæmt nýlegri könnun eru konur að meðaltali betur borgaðar en karlar innan þeirrar starfstéttar).

18. gr. Auglýsingar. - Auglýsandi, og sá sem hannar eða birtir auglýsingu, skal sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt.

Hvernig er hægt að verða heilu kyni til minnkunar?  Ef það er sýnd mynd af heimskum manni, er þá verið að segja að allir menn séu heimskir? Ef beinum orðum væri sagt að t.d. konur væru upp til hópa heimskar, myndu þeir auglýsendur finna sjálfir afleiðingarnar í samfélagslegri reiði.  Þessi lagagrein er óþörf.

og síðan versta greinin

22. gr 2. mgr. - Þó teljast sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna eða karla til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna ekki ganga gegn lögum þessum. Þá teljast aðgerðir til að auka möguleika kvenna eða karla sérstaklega til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna ekki ganga gegn lögum þessum. Sama á við ef nauðsynlegt telst að ráða annað kynið vegna hlutlægra þátta er tengjast starfinu.

Þetta er hin margumrædda ,,jákvæða mismunun".  Jafnréttisbaráttan gengur út á það að berjast gegn mismunun á grundvelli kynferðis, en jafnréttislögin í raun hvetja til þess. 

Fleirri greinar í lögunum eru ekki til eftirbreytni og hvetur feministi til að fólk kíki á lögin sjálf og myndi sér sína eigin skoðun.

Við stelpur erum engir aular, við þurfum ekki aðgerðir yfirvalda til að ná árangri. Aftur á móti mætti hugarfarið stundum vera betra hjá samfélaginu, því verður ekki neitað. 

Femínistinn, 21.2.2007 kl. 13:16

12 Smámynd: Víðir Ragnarsson

Mjög góð grein því fátt er verra en þegar sérhópar úthluta sér einkarétti á almennum mannréttindum eða taka hugmyndir og hugtök í gíslingu og túlka eftir eigin öfgaskoðunum.

Það á við jafn vel í dag eins og árið 1836: "I recognize no rights but human rights — I know nothing of men’s rights and women’s rights" Angelina Grimké (1805–1879)

Víðir Ragnarsson, 21.2.2007 kl. 14:09

13 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Takk fyrir mjög greinagóð svör.  Ég tek undir með ykkur að konur og stelpur eru engir aular.

Mér leikur forvitni á að vita hvort ykkur finnst staða kvenna á íslandi í dag ásættanleg?  Þá á ég við fjölda kvenna í áhrifastöðum, launamuninn og konur í pólitík.

Ef ykkur finnst staðan ekki ásættanleg, finnst ykkur ástæða til að grípa til einhverra aðgerða og þá hverra? 

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 21.2.2007 kl. 14:27

14 Smámynd: Jóhann Gunnar Gunnarsson

Mjög góð gein sem kemur á óvart.  Það er nákvæmlega svona barátta og viðhorf sem kemur til með að breyta þjóðfélaginu.

Jóhann Gunnar Gunnarsson, 21.2.2007 kl. 14:53

15 Smámynd: Kári Hólmar Ragnarsson

sæll Feministi.

Nokkrar spurningar sem ég væri til í að fá svör við, til þess að skilja betur hugmyndir þínar.

1) Lauk jafnréttisbaráttunni 1995 með setningu 2.mgr.65.gr. stjórnarskr. um jafnan rétt karla og kvenna?

2) Ef ekki, telur þú engar jákvæðar (pósitífar) aðgerðir réttlætanlegar til þess að tryggja jafnrétti? 

3) Hvernig kemstu að þeirri niðurstöðu að FÍ (þar á meðal Karlahópur FÍ)  stuðli að andstöðu karla og kvenna?

4) Hvenær býstu við því að jafnrétti náist "með tíð og tíma"? (Í svarinu, vinsamlegast taktu með í reikninginn að þær umbætur sem hafa náðst í jafnréttismálum á síðustu 100 árum hafa aðeins náðst með þrotlausri baráttu feminista - aðgerðum, ekki aðgerðarleysi).

Vona að þessar spurningar séu ekki of frekar.

Kári Hólmar Ragnarsson, 22.2.2007 kl. 10:31

16 Smámynd: Femínistinn

Sæll Kári.

1) Nei, en baráttan er ekki barátta sem fara á fram i gegnum löggjafarvaldið, heldur er hún hugmyndafræðilegs eðlis.  Við þurfum að stuðla að breyttu hugarfari, með fræðslu og skoðanaskiptum.  Það næst ekkert með öfgum og látum. 

2) Jú ef þær stuðla ekki að óréttlæti.  Það hjálpar ekki að bæta stöðu kvenna með því að skerða annarra.

3) Um það er ekki hægt að deila að öfgar FÍ hafa farið illa í stórann hóp bæði karla og kvenna.  Femínisti er orðið neikvætt orð sem það á alls ekki að vera. 

4) Breyttu hugarfari! Aðgerðir femínista hafa vissulega hjálpað til, en einnig skaðað baráttuna.  Við eigum að hætta að hugsa um kyn og einbeitta okkur að jafnræði einstaklingsins. 

Með spurningu þína Matthildur, þá er staða kvenna ekki nægjanlega góð.  En ábyrgðin er hjá okkur, við þurfum að krefjast betri starfa, launa o.s.frv. 

Það þarf ekki að troða mér fram sem einhverjum ómaga. Ég vil fá vinnu, stöðu eða laun vegna þess að ég er hæf, ekki vegna þess að ég er kona.        

Femínistinn, 22.2.2007 kl. 10:55

17 identicon

Frábær grein og lýsi aðdáun á skemmtilegri umfjöllun sem var hér í athugasemdardálknum. Skil vel að höfundur vilji leyna nafni sínu um stund. Hef sjálfur lent í því að vera kallaður karlremba fyrir að koma með þessi sjónarmið sem skrifuð voru um í þessari grein. Hafið allan minn stuðning ef þið berjist fyrir jafnrétti á frjálslyndum grundvelli.

Kær kveðja

Hallgrímur

Hallgrimur Viðar Arnarson (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 11:13

18 Smámynd: Kári Hólmar Ragnarsson

Býst við nýju svari við spurningu 4)

Spurt var hvenær, en ekki hvernig.

takk annars, mun bregðast við þegar allt er komið fram. 

Kári Hólmar Ragnarsson, 22.2.2007 kl. 11:46

19 Smámynd: Femínistinn

Sæll Kári.

Það er vonandi stutt í jafnrétti, en því má ekki rugla saman við jafnt kynjahlutfall. Jafnt kynjahlutfall er ekki jafnrétti, nær aðskilnaðarstefnu heldur en jafnrétti.

Með ásakarnir um að við séum strákar á menntaskólaaldri þá svarast sú spurning von bráðar, því ein okkar er á leið í viðtal hjá nokkrum fölmiðlum, sennilega í næstu viku.  Aftur á móti ef strákar á hvaða aldri sem er hafa áhuga á jafnrétti getur vel verið að við tökum þá í hópinn. 

Femínistinn, 23.2.2007 kl. 13:45

20 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Merkileg lesning. Í mínum huga er feministi eitthvað sem berst gegn mínum réttindum. Feministi er því að vinna gegn mér. Ég mun aldrei legga nokkrum lið sem berst gegn sjálfsögðum réttindum einstaklinga. Mín reynsla eftir að hafa verið faðir með forræði til margra ára, er að barátta feminsta gegn mínum réttindum bitnar á börnum. Ég er að fullu og öllu leiti stuðningsmaður réttlætis, en feminstar virðast ekki vera þannig. Ég velti því fyrir mér hvort við eigum þá samleið. Öfgar í baráttu fyrir réttlæti skila ekki framförum. Þetta blogg mun kannski ná fram jafnræði hraðar en feministar :) Gangi ykkur vel.

Birgir Þór Bragason, 23.2.2007 kl. 18:26

21 Smámynd: Svanfríður Lár

Merkileg lesning, verð að viðurkenna að ég er eina af þeim sem hélt að hér væru á ferð ungir strákar í stríðnishugleiðingum, en hallast eftir þessa lesningu á að svo sé ekki.  Ég er mikill jafnréttissinni sjálf enda félagi í Samtökunum 78.  Hef þó aldrei fengið mig til að gerast félagi í FÍ sökum öfgafullra aðgerða, vopnin hafa svo oftar en ekki snúist í höndum þeirra.  Lenti sjálf í rimmi við forystu FÍ vegna atvinnu minnar og var hótað svokallaðri "Boycott" aðferð.  Allar konur (u.þ.b. 20)sem unnu í því fyrirtæki snérust gegn feministafélagi Íslands þá en töldu sig allar vera jafnréttissinnaðar.  Það er auðvelt með hvatvísi að skaða góðan málstað!

Svanfríður Lár, 1.3.2007 kl. 12:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband